Dómstólaráð fer með yfirstjórn stjórnsýslu héraðsdómstólanna og starfar á grundvelli dómstólalaga nr. 15/1998. Fimm menn eiga sæti í ráðinu sem innanríkisráðherra skipar. Tveir skulu kjörnir af héraðsdómurum úr þeirra röðum, tveir kjörnir af dómstjórum úr þeirra hópi og einn, sem ekki er dómari, er skipaður án tilnefningar. 


Dómstólaráð er þannig skipað:

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, varamaður hennar er Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari, skipaðar til 15. maí 2021.

Jón Höskuldsson, héraðsdómari, varamaður hans er Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, skipuð til 14. maí 2020.

Halldór Halldórsson, dómstjóri, varamaður hans er Hildur Briem dómstjóri, skipuð til 31. desember 2017.

Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri, varamaður hans er Ingimundur Einarsson dómstjóri, skipaðir til 30. júní 2018.

Þórdís Ingadóttir, dósent, varamaður hennar er Hrefna Friðriksdóttir dósent, skipaðar án tilnefningar til 30. júní 2019.

 

Formaður dómstólaráðs er Jón Höskuldsson. Varaformaður er Hervör Þorvaldsdóttir.

Samkvæmt dómstólalögunum er helsta hlutverk dómstólaráðs að fara með ábyrgð á fjárreiðum héraðsdómstólanna, setja samræmdar reglur sem gilda fyrir héraðsdómstólana, ákvarða um fjölda dómara og annarra starfsmanna við hvern dómstól og safna upplýsingum um fjölda og afgreiðslu mála auk útgáfu ársskýrslu um starfsemina. Dómstólaráði ber einnig að stuðla að því að gætt sé skilvirkni og hraða við rekstur dómsmála og fer með forsvar héraðsdómstólanna sameiginlega gagnvart stjórnvöldum og öðrum. Þá annast dómstólaráð símenntun héraðsdómara og annarra lögfræðinga sem starfa við héraðsdómstólana. 

 
Verkefni dómstólaráðs eru þó ekki tæmandi talin í dómstólalögunum. Dómstólaráð sinnir meðal annars einnig tölvu- og upplýsingamálum héraðsdómstólanna, samstarfi við yfirstjórnir dómstóla á Norðurlöndunum og símenntun annarra starfsmanna héraðsdómstólanna.