Dómstólar hafa það hlutverk að skera úr um ágreining milli aðila og hvort einstaklingar, lögaðilar eða opinberir aðilar hafi brotið gegn lögum. Hér á landi eru starfandi tvö dómstig, þ.e. héraðsdómur og Hæstiréttur. Öll mál koma fyrst til úrlausnar fyrir héraðsdómstól, sem  nefnist lægra dómstig. Niðurstöðum héraðsdómstóla er svo að uppfylltum ákveðnum skilyrðum hægt að skjóta til æðra dómstigs, Hæstaréttar Íslands, en niðurstöður hans eru endanlegar.

Til hliðar við héraðsdómstólana og Hæstarétt starfa einnig tveir sérdómstólar, annars vegar Landsdómur og hinsvegar Félagsdómur. Þessir sérdómstólar starfa á grundvelli sérstakra laga. Landsdómur starfar á grundvelli 14. gr. stjórnarskrárinnar sem leggur það í vald Landsdóms að fjalla um ætluð brot ráðherra í embætti að mati Alþingis. Félagsdómur starfar á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur og er hlutverk hans að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.

Hér að neðan er að finna stutta kynningu á helstu þáttum starfsemi héraðsdómstólanna og samspili þeirra og ofangreindra dómstóla.
 

Héraðsdómstólarnir eru átta talsins og starfa hver á sínu landsvæði. 

Héraðsdómstólarnir nefnast Héraðsdómur Reykjavíkur, Héraðsdómur Reykjaness, Héraðsdómur Vesturlands, Héraðsdómur Vestfjarða, Héraðsdómur Norðurlands vestra, Héraðsdómur Norðurlands eystra, Héraðsdómur Austurlands og Héraðsdómur Suðurlands. 

Innan hvers héraðsdómstóls starfa meðal annars dómarar, aðstoðarmenn dómara, dómritarar og starfsfólk skrifstofu. Einn af dómurum viðkomandi dómstóls er skipaður dómstjóri. Þar sem þrír eða fleiri dómarar starfa kjósa þeir einn úr sínum röðum sem dómstjóra, ef dómari er einn við dómstól verður hann skipaður þar dómstjóri. Dómstjórar fara með stjórn héraðsdómstóla og bera ábyrgð á störfum þeirra. Dómstólaráð fer svo með yfirstjórn stjórnsýslu héraðsdómstólanna og starfar samkvæmt ákvæðum dómstólalaga.

Meginhlutverk héraðsdómstólanna er að tryggja að allir njóti réttlátrar og sanngjarnar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum dómstóli. Dómararnir skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum, þeim ber að fara einungis eftir lögum og kveða upp rökstudda og skiljanlega dóma innan lögbundinna tímamarka. Málsmeðferð héraðsdómstóla er opinber sem þýðir að almenningur getur alla jafna verið viðstaddur þinghöld og fylgst með störfum dómstólanna. Samkvæmt meginreglunni um opinbera málsmeðferð fyrir dómi skulu dómar að meginstefnu vera gefnir út. Dómstólaráð hefur tekið þá ákvörðun að útgáfa dóma skuli vera í formi birtingar á vefsíðu héraðsdómstólanna samkvæmt nánari reglum þar um.

Héraðsdómstólum ber einnig að stuðla að trausti og aukinni þekkingu almennings á störfum þeirra sem og réttarríkinu. Í því skyni leggja héraðsdómstólarnir mikið upp úr hæfu starfsfólki, skilvirkni og hagkvæmni ásamt því að miðla upplýsingum til almennings.

Að tilteknum skilyrðum uppfylltum er hægt að skjóta niðurstöðum héraðsdómstólanna til Hæstaréttar.  

 
Hæstiréttur Íslands var stofnaður með lögum nr. 22/1919 og tók til starfa 16. febrúar 1920. Hæstiréttur fer með æðsta dómsvald hér á landi.
 
Hæstiréttur starfar í tveimur deildum og taka ýmist þrír eða fimm dómarar þátt í meðferð máls fyrir dómi hverju sinni, en hæstaréttardómarar eru nú 10 talsins. Í sérlega mikilvægum málum getur forseti þó ákveðið, að sjö dómarar skipi dóm. Þegar fimm eða sjö dómarar sitja í dómi skulu að jafnaði eiga þar sæti þeir, sem lengst hafa verið skipaðir hæstaréttardómarar. 
 
Meginreglan er sú að mál eru munnlega flutt fyrir Hæstarétti og eru dómþingin, sem hefjast kl. 9 árdegis, yfirleitt opin almenningi. Forseti Hæstaréttar stýrir dómi en varaforseti í fjarveru hans.

Á heimasíðu Hæstaréttar eru birtar margvíslegar upplýsingar um Hæstarétt og verkefni hans. 

Dómar Hæstaréttar eru birtir á heimasíðunni, þegar þeir hafa verið kveðnir upp. Með hæstaréttardómunum eru jafnframt birtir þeir héraðsdómar sem til endurskoðunar hafa verið. Dómarnir eru birtir án endurgjalds og í þeim tilgangi fyrst og fremst að þeir geti verið aðgengilegir lögmönnum og almenningi, eins og nauðsyn ber til í lýðræðisríki. 

Á heimasíðunni er einnig birt skrá yfir þau mál sem flutt verða fyrir Hæstarétti og tekur skráin að jafnaði til nokkurra vikna í senn. Þar er einnig skrá yfir þau mál sem áfrýjað hefur verið en ekki hafa hlotið afgreiðslu. 

Jafnframt er að finna tölulegar upplýsingar um málafjölda og afgreiðslu mála á heimasíðunni, auk upplýsinga um núverandi og fyrrverandi hæstaréttardómara, starfsfólk Hæstaréttar og dómhús réttarins. Loks er þar að finna ágrip af sögu dómaskipunar á Íslandi o.fl.
 
Landsdómur er sérdómstóll sem starfar á grundvelli 14. gr. stjórnarskrárinnar. Landsdómi er falið það hlutverk að fjalla um ætluð brot ráðherra í embætti. 

Brotum ráðherra gegn lögum um ráðherraábyrgð er skipað í þrjá flokka, þ.e. stjórnarskrárbrot, brot á öðrum landslögum og brot á góðri ráðsmennsku. Brotin geta bæði verið svokölluð framkvæmdarbrot og vanrækslubrot.

Ákvörðun um málshöfðun gegn ráðherra er í höndum Alþingis og er hún gerð með þingsályktun. Alþingi kýs mann í starf saksóknara til að sækja málið af sinni hendi og annan til vara. Alþingi kýs einnig fimm manna þingnefnd til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar.

Í Landsdómi eiga sæti 15 dómarar en af þeim eru átta kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Einnig sitja í dómi þeir fimm dómarar Hæstaréttar sem hafa átt þar lengst sæti, dómstjórinn í Reykjavík og prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands. Forseti Hæstaréttar er sjálfkjörinn forseti Landsdóms.

Nánari upplýsingar  um Landsdóm, úrskurði hans og dóma er að finna á heimasíðu dómstólsins.
 
Félagsdómur er sérdómstóll sem starfar á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Félagsdómi er falið það hlutverk að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins.
 
Málin geta varðað brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, tjón sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana og brot á vinnusamningi eða ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Jafnframt hefur dómstóllinn heimild til þess að fjalla um önnur mál á milli verkamanna og atvinnurekenda sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, með því skilyrði að a.m.k. þrír af dómendum séu því meðfylgjandi. Loks er heimilt að leita úrskurðar Félagsdóms um hvort starfsemi geti talist vera iðnaður og til hvaða iðngreinar hún taki.
 
Í Félagsdómi eiga sæti fimm menn sem skipaðir eru til þriggja ára.
 
Ekki er heimilt að flytja mál fyrir almennum dómstólum sem höfða má fyrir Félagsdómi nema Félagsdómur hafi neitað að taka málið til meðferðar, sbr. 47. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Úrskurðir og dómar Félagsdóms eru endanlegir og verður almennt ekki áfrýjað.
 
Nánari upplýsingar um Félagsdóm er að finna á heimasíðu velferðarráðuneytisins. Þá er dóma og úrskurði Félagsdóms að finna á síðunni úrskurðir.is.
Starfsemi héraðsdómstólanna er afar fjölbreytt. 

Í grófum dráttum eru dómsmál við héraðsdómstóla flokkuð í 30 málaflokka eða málategundir.

Fyrirferðamestu málaflokkarnir eru sakamál og einkamál og er þeim gerð nánari skil hér til hliðar, ásamt öðrum umfangsmeiri málaflokkum. 

Sakamál eru til komin vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi einstaklinga eða lögaðila og eru sótt á hendur þeim af hálfu ákæruvaldsins, fyrir hönd hins opinbera. Sakamál eru því oft einnig nefnd opinber mál, en með ákæruvaldið fara lögreglustjórar, héraðssaksóknari og ríkissaksóknari. 

Ákvörðun um höfðun sakamála er í höndum ákæruvaldsins og þau eru höfðuð með útgáfu ákæru, til úrlausnar um sök og ákvörðun refsingar. Ákæruvaldið getur þó einnig gert kröfu um eignaupptöku, sviptingu réttinda og ómerkingu ummæla. Hafi mál verið höfðað er það á ábyrgð ákæruvaldsins að afla gagna og sanna sekt sakbornings.

Af svokallaðri sannleiksreglu í sakamálaréttarfari leiðir að leiða skal hið sanna og rétta í ljós í sakamáli. Dómari í sakarmáli er því ekki bundinn af kröfum og yfirlýsingum aðila málsins gagnstætt því sem gildir um einkamál. 

Nánar er fjallað um málsmeðferð í sakamálum til hliðar við flipann málsmeðferð hér að neðan.

Einkamál eru til komin vegna ágreinings um réttindi og skyldur á milli einstaklinga eða lögpersóna eða gagnvart ríkinu eða öðrum opinberum aðilum. Aðilar einkamáls geta þannig verið einstaklingar, félag, stofnun eða íslenska ríkið. 

Það sem einna helst skilur einkamál frá sakamálum er sú staðreynd að ákæruvaldið getur ekki verið aðili að einkamálum. Hins vegar geta aðilar haldið uppi einkaréttarlegri kröfu í sakamáli að uppfylltum tilteknum skilyrðum. 

í einkamálum er það í höndum þeirra einstaklinga, félaga eða stofnana sem höfða viðkomandi einkamál að ákveða hvaða kröfur eru gerðar í málinu sem og að afla og leggja fram gögn í því skyni að sýna fram á rétt sinn.  

Dómstólar hafa vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til og getur ágreiningur í einkamálum því verið af margvíslegum toga. 

Í einkamálum er dómari bundinn af kröfum og yfirlýsingum aðila þannig að hann má ekki fara út fyrir þær í dómi eða úrskurði sínum nema um sé að ræða tiltekin atriði sem honum ber að gæta að af sjálfsdáðum.

Nánar er fjallað um málsmeðferð í einkamálum til hliðar við flipann málsmeðferð hér að neðan.

Héraðsdómstólarnir taka til meðferðar gjaldþrotaskiptabeiðnir, beiðnir um opinber skipti á dánarbúum og beiðnir um opinber fjárslit hjóna eða sambúðarfólks.

Gjaldþrotaskipti.
Að uppfylltum tilteknum skilyrðum getur lánadrottinn krafst þess að bú skuldara (einstaklingur eða lögpersóna) sem ekki hefur staðið í skilum, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá getur skuldari (einstaklingur eða lögpersóna) einnig að uppfylltum tilteknum skilyrðum, krafist þess sjálfur að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotaskiptabeiðni er send þeim héraðsdómstól sem fer með lögsögu í því umdæmi sem skuldarinn er með skráð lögheimili. Ef bú viðkomandi aðila er tekið til gjaldþrotaskipta er um leið skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.

Dánarbússkipti.
Ef ekki er hægt að ljúka skiptum á dánarbúi með svokölluðum einkaskiptum, er unnt að beina skriflegri kröfu um opinber skipti á dánarbúi til héraðsdómstóls sem hefur lögsögu í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Ef viðkomandi dánarbú er tekið til opinberra skipta er um leið skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.

Opinber fjárslit hjóna.
Ef ekki næst sátt á milli hjóna eða sambúðarfólks um skiptingu eigna við skilnað/sambúðarslit getur annað hjóna eða annar eða báðir af sambúðaraðila, beint kröfu um opinber skipti fjárslita til héraðsdómstóls í því umdæmi sem lögheimili þeirra er skráð. Þegar um sambúðarfólk er að ræða er gerð krafa um að viðkomandi hafi búið saman samfleytt í tvö ár hið skemmsta. Eftir að bú hjóna eða sambúðarfólks hefur verið tekið til opinberra skipta er skipaður skiptastjóri sem sér um að ljúka skiptum utan dómstólsins.

Þegar um gjaldþrotaskipti, dánarbússkipti eða opinber fjárslit hjóna/sambúðarfólks er að ræða getur komið til þess að skiptastjóri þurfi að leggja ágreining vegna skiptanna fyrir héraðsdóm. Þá geta þeir sem aðild eiga að skiptunum beint aðfinnslum vegna starfa skiptastjóra til héraðsdóms. Nefnast slík mál ágreiningsmál vegna gjaldþrotaskipta, dánarbússkipta eða opinberra fjárslita hjóna eða sambúðarfólks.
 
Vísa má ágreiningi um aðfaragerðir nauðungarsölu, kyrrsetningu og lögbann til dómstóla.
Aðfaragerðum, kyrrsetningu og lögbanni verða því gerð nánari skil hér að neðan.

Þvingunarráðstafanir/fullnustugerðir
Aðfarargerðir, kyrrsetning og lögbann eru þvingunarráðstafanir sem stjórnvöld geta beitt í því skyni að knýja fram eða tryggja efndir á skyldum aðila, eða til varnar ólögmætu atferli. Þessar gerðir eru oft kallaðar fullnustugerðir. Unnt er að vísa ágreiningi um fjárnám og nauðungarsölu, kyrrsetningu, lögbann, aðfaragerðir og þinglýsingar til héraðsdóms.

Hér að neðan er að finna nánari skýringar á hverri fullnustugerð fyrir sig.

Aðför, aðfararheimild og aðfarafrestur
Aðför er almennt beitt til að knýja á um fullnustu skyldu, hvort sem skyldan er fólgin í greiðslu peningaskuldar, athöfn eða athafnaleysi. 

Sá sem krefst aðfarar er nefndur gerðarbeiðandi en sá sem aðför beinist gegn er nefndur gerðarþoli. 

Undir aðfarargerðir falla fjárnám, útburðar- og innsetningargerðir. Til frekari skýringar er með fjárnámi knúið á um greiðslu peningaskuldar og er fjárnám algengasta aðfarargerðin. Ólíkt fjárnámi eru útburðar- og innsetningargerðir hins vegar svokallaðar beinar aðfarargerðir. Í tilfelli beinna aðfarargerða getur héraðsdómari úrskurðað án tafar um það hvort bein aðfarargerð geti farið fram. Sé heimild veitt getur gerðarbeiðandi snúið sér beint til viðkomandi sýslumanns sem framkvæmir þá aðgerðina á grundvelli fyrirliggjandi dóms sem kveður á um hina beinu aðfararheimild.

Í tilviki útburðargerða liggur fyrir aðfararheimild sem kveður á um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða láta gerðarbeiðanda af hendi umráð fasteignarinnar eða til að fjarlægja hluti af fasteigninni. Í tilviki innsetningar liggur fyrir aðfararheimild sem kveður á um skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð lausafjár eða annarra hluta en eignarheimild yfir fasteign.

Í grófum dráttum er með aðfararheimild átt við hvernig krafa þarf að vera úr garði gerð til þess að henni verði fullnægt með aðför.

Aðfararfrestur er sá tími sem líða má frá því að aðfararheimildin varð til og þar til aðför má fara fram. Almennt er aðfararfrestur 15 dagar. 

Aðför samkvæmt árituðum stefnum er hins vegar heimilt að framkvæma án tafar og er því ekki um neinn aðfararfrest að ræða í slíkum tilvikum.

Kyrrsetning og lögbann
Kyrrsetning og lögbann eru bráðabirgðaaðgerðir og er gripið til þeirra ef hætta þykir á að athöfn raski með ólögmætum hætti rétti gerðarbeiðanda meðan leitað er úrlausnar dómstóla.

Þegar um kyrrsetningu er að ræða kyrrsetur sýslumaður eignir gerðarþola að kröfu gerðarbeiðanda í þeim tilgangi að eignin verði til staðar þegar fjárnámsheimildar hefur verið aflað og hægt er að framkvæma fjárnám.

Með lögbanni eru stöðvaðar fyrirhugaðar aðgerðir sem líklegar eru til að raska lögvörðum hagsmunum manns.

Í öllum tilvikum er gerð sú krafa að gerðarbeiðandi leggi fram tryggingu fyrir því tjóni sem gerðarþoli kann að verða fyrir og að höfðað sé dómsmál til staðfestingar kyrrsetningunni eða lögbanninu innan við viku frá því að gerðin var framkvæmd.